26/11/2024
Þegar bráðefnilegur tveggja vetra foli var slepptur í Nípukotshryssur þann 23. júní var ljóst að það þyrfti að hugsa stóðhestamál upp á nýtt. Allar þrjár hryssurnar sem fylgdu mér hingað frá Víðidalstungu 2 lifðu greinilega á svolítið öðruvísi tímabelti og voru ennþá ókastaðar, á meðan allar Nípukotshryssur voru kastaðar um mánaðarmótin maí/júní. Ekki leist mér á að bæta þrjár hryssur við hjá ungum og óreyndum stóðhesti, það gæti aldeilis kallað á vesen, og ég vildi nú helst reyna að flýta mínar... þannig að ég sendi fyrirspurn út í kosmósið og á veraldarvefnum, með ósk um stóðhest til láns. Síminn stoppaði eiginlega ekki það kvöld, sem hlýjaði hjartarætur í sjálfu sér. Einn þeirra sem lyfti tólið var góður vinur minn, hann Einar Halldór. Ég fann strax að valkostinn sem hann bauð mér kallaði hátt og skýrt. Stuttu seinna mætti hingað leirljósum hesti, 17 vetra, í þrusuflottu standi eftir að hafa verið nemandahestur hjá 3 árs nema á Hólum. Þessi höfðingi, Drösull frá Nautabúi, kom út með 7.98 á kynbótabrautinni á sínum tíma, er undan Andra frá Vatnsleysu og 1 verðlauna hryssu undan Otri frá Sauðárkróki. Hann hefur keppt í ungmennaflokki, 2. flokki og 1. flokki, í fjórgangi, tölti og fimmgangi, og verið nemandahestur á Hólum oftar en einu sinni. Þarna koma saman blóðlínur og eiginleikar sem ég leita að í minni ræktun. Drösull dvaldi með hryssurnar mínar fyrir utan stofugluggann hér í Nípukoti fram í september, það var afskaplega notalegt að umgangast þennan öðling og ég er strax farin að dreyma um folöldin sem eru væntanleg næsta sumar. Takk æðislega fyrir lánið, elsku Einar minn!